ÁR kórinn(Árnesingakórinn í Reykjavík)
  • Um kórinn
    • Saga kórsins
  • Á Döfinni
  • Vertu með
  • Útgáfa
  • Hafðu samband
  • Myndasíðan

1966-1970

Snemma á árinu 1966 var hafist handa við að stofna kór innan Árnesingfélagsins í Reykjavík. Að vísu var sú hugmynd ekki ný af nálinni, því hún var búin að vera á döfinni í mörg ár og voru á því tímabili búnir að skjót upp kollinum litlir sönghópar sem sungu á árshátíð félagsins eða öðrum skemmtunum en lognuðust síðan út af.
Í mars 1966 var ráðist í það að auglýsa eftir söngfólki með það fyrir augum að stofna blandaðan kór og Jónas Ingimundarson ráðinn söngstjóri.
Á fyrstu æfingu voru mættir 6 manns og lofaði það nú ekki góðu. Á næstu æfingum bættust fleiri í hópinn og áfram var haldið. Æft var af kappi fyrir væntanlegt Jónsmessumót Árnesingafélagsins í Reykjavík sem halda átti að Borg í Grímsnesi. Söngstjórinn átti drýgstan þátt í því að þessi áhugamannakór hélt ótrauður áfram þrátt fyrir ýmsa byrjunarerfiðleika.
Kórinn fékk inni fyrir æfingar í Húnvetningaheimilinu í Reykjavík og var æft einu sinni í viku allt vorið og endað á því að syngja á fyrrnefndu Jónsmessumóti. Meðal laga á efnisskránni voru Vísur gamals Árnesings (Árnesþing) eftir Sigurð Ágústsson frá Birtingaholti og hefur það lag fylgt kórnum ætíð síðan.
Að hausti voru æfingar hafnar á ný og átti kórinn þess þá ekki kost að fá Jónas Ingimundarson sem söngstjóra og var Jakob Hallgrímsson ráðinn í hans stað. Nú bættust fleiri í hópinn og voru félagar orðnir yfir 20 talsins. Var þá strax farið að æfa fyrir árshátíð Árnesingafélagsins í Reykjavík sem halda átti í febrúar. Æft var einu sinni í viku fram að jólum en þá var æfingum fjölgað eftir þörfum.
Sungið var á Hótel Borg 12. febrúar 1967. Eftir þetta var ákveðið að stofna kórinn formlega, kjósa stjórn og starfa áfram sem sjálfstæð deild innan Árnesingafélagsins í Reykjavík. Árnesingakórinn í Reykjavík var formlega stofnaður 14. febrúar 1967 og voru stofnfélagar 22. Á stjórnarfundi 21. febrúar sama ár var ákveðið að kórinn skyldi heita Árnesingakórinn í Reykjavík. Fljótlega komst á sú hefð að hafa samstarf við aðra kóra austan fjalls. Frumraun okkar var 29. apríl 1967 að taka á móti Söngfélagi Hreppamanna sem hélt tónleika sína í Gamla bíói. Tók kórinn á móti þeim með kaffisamsæti.
Fyrsta starfsári kórsins lauk 25. júní með söng á Jónsmessumóti Árnesingafélagsins í Þjórsárveri.
Haustið 1967 tók Þuríður Pálsdóttir söngkona við stjórn kórsins og söng hann undir hennar stjórn allt til ársins 1974. Hún tók sér þó hlé vorið 1972 og Jónína Gísladóttir undirleikari kórsins leysti hana af. Hlín Torfadóttir var undirleikari þann tíma.
Fyrstu starfsárin söng kórinn á mörgum skemmtunum í Reykjavík og fyrir austan fjall.
Í júní 1969 kom Færeyski Útvarpskórinn til Reykjavíkur. Árnesingakórinn bauð til kaffisamsætis og tókst það sérstaklega vel, mikið sungið og dansaðir færeyskir dansar. Útvarpskórnum var færð gjöf frá Árnesingakórnum sem var íslenskt kálfskinn með ljóðinu "Kveðja" eftir Freystein Gunnarsson og á skinnið rituðu allir viðstaddir nöfn sín. Útvarpskórinn bauð Árnesingakórnum til Færeyja og var stefnt að því að heimsækja þá sem allra fyrst.
Fyrsta myndatakan var 8. apríl 1970.
Útvarpsupptaka 28. apríl 1970.
Á stjórnarfundi 6. október var endurvakin sú hugmynd að fara til Færeyja en engar endanlegar ákvarðanir teknar. Seinna um veturinn var ferðin ákveðin og hafist var handa við að safna fyrir henni. Ákveðið var að hafa happdrætti til fjáröflunar og voru prentaðir 3.300 miðar sem seldust upp.
Vinningarnir voru:
1. 15 daga ferð til Mallorca
2. Flugfar til Kaupmannahafnar
3. Flugfar til Færeyja
4. Ryksuga
5. Kvenmannsúr

1971-1975

Haldið var til Færeyja í vikuferð 1. júní 1971.
Kórstarfið fór hægt af stað eftir ferðina til Færeyja þannig að ákveðið var að hefja ekki æfingar fyrr en eftir áramót 1972.
Þorrablót var haldið 24. febrúar 1973. Þar kom fram í fyrsta skipti sextettinn "Nokkuð stór" en í honum voru: Jóhanna Guðmundsdóttir, Kristín Ólafsdóttir, Herdís P. Pálsdóttir, Guðrún E. Guðmundsdóttir, Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, Hjördís Geirsdóttir, Úlfhildur Geirsdóttir og stjórnandi Björn Ó. Björgvinsson. Konurnar komu fram í herrafötum með þverslaufur og pípuhatta. Þetta atriði vakti geysimikla athygli og kátínu.
Þann 6. apríl var haldin skemmtun að Flúðum í Hrunamannahreppi. Sextettinn "Nokkuð stór" kom fram og þar á eftir fjórir herrar í kvenmannsfötum með hárkollur og sungu nokkur lög. Þeir voru: Sveinn Guðmundsson, Þórður Guðmundsson, Óskar Sigurgeirsson og Ólafur Sigurðsson. Dansað var fram eftir nóttu og á heimleið var komið við í Hruna þar sem sr. Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Alma Ásbjarnardóttir buðu upp á staup, kaffi og smurt brauð og var það kærkomin hressing.
Þann 24. september 1973 var haldinn fundur með fulltrúum Árnesingafélagsins í Reykjavík og var ákveðið að gefa út hljómplötu í samvinnu við félagið. Hljómplatan átti eingöngu að innihalda lög eftir Árnesinga. Fulltrúar Árnesingafélagsins töldu að félagið gæti lánað nokkurt fé til útgáfu þessarar eða ábyrgst bankalán ef á þyrfti að halda. Upptökur fóru fram í Hallgrímskirkju. Eitt lag var þó tekið upp í kirkju Fíladelfíusafnaðarins. Upptökum lauk í júní 1974 og platan var gefin út í byrjun nóvember sama ár.
Þess má geta að þetta var fyrsta hljómplatan með blönduðum kór sem tekin var upp í stereo á Íslandi.
Sigurður Ágústsson stjórnaði kórnum 1974-1975.

1976-1980

Árið 1976 var engin starfsemi.
Eftir áramót 1976-1977 tók kórinn aftur til starfa undir stjórn Vilhjálms Guðjónssonar og Ragnars Þorgrímssonar þar til Haukur Ágústsson tók við í apríl sama ár.
Haustið 1977 tók Jón Kristinn Cortes við stjórn kórsins og blómstraði starfsemin.
Kórinn tók þátt í kóramóti í tilefni af 40 ára afmæli Landssambands blandaðra kóra 14. og 15. apríl 1978. Sungið var í Háskólabíói og Laugardalshöll.
Á starfsárinu 1978-1979 þurftu kórfélagar í fyrsta skipti að greiða mánaðargjöld til þess að standa undir rekstri kórsins. Starfsárið 1979-1980 var Helga Gunnarsdóttir ráðin stjórnandi kórsins. Vorið 1980 var farið í ferðalag á Snæfellsnes þar sem sungið var í Stykkishólmi og á Hellissandi. 12. apríl 1980 var samsöngur Árnesingakórsins og Samkór Selfoss í Bústaðakirkju. Voru þessir tónleikar upphaf að árlegu samstarfi þessa kóra. Haustið 1980 tók Guðmundur Ómar Óskarsson við stjórn kórsins.

1981-1985

Vorið 1982 var farið vestur þar sem sungið var að Logalandi og í Búðardal.
Á aðalfundi haustið 1982 voru samþykkt lög kórsins.
Þann 16. apríl 1983 voru haldnir sameiginlegir tónleikar í Selfosskirkju með Samkór Selfoss og Árneskórnum sem nú hafði bæst í hópinn.
Kórinn tók þátt í námskeiði á vegum Landssambands blandaðra kóra 10.-13. nóvember í Langholtskirkju og nefndist það Ísklang.
Aðventusöngur og kökusala í Austurstræti 17. desember. Til gamans má geta þess að fyrir kökusölu þurfti eftirfarandi leyfi:
  • Heilbrigðisvottorð frá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur
  • Leyfi frá Reykjavíkurborg
  • Sérstakt leyfi fyrir bíl eða tjaldvagn.
Ákveðið var á aðalfundi 1984 að stefna á tveggja vikna ferð til Noregs sumarið 1985. Farið var að huga að fjáröflun og leita upplýsinga hjá ferðaskrifstofum. 15. desember var sett upp sölutjald á Lækjartorgi og ýmislegt til sölu. Veðrið setti þó strik í reikninginn,tjaldið fauk og brugðið var á það ráð að selja varninginn úr bílnum hans Björgvins. Kórinn efndi til happdrættis og meðal vinninga var dilkur á fæti sem Sveinn Sæmundsson gaf. Enginn vitjaði vinningsins og þannig villtist kórinn óvart inn í landbúnaðinn. Þetta var erfið staða og kom kórnum í vanda því hann átti jú ekkert búmark. En úr rættist þegar bóndinn í kórnum, Sveinn Sæmundsson bauðst til að taka lambið í hús og ljá kórnum hlutdeild í búmarki sínu. Skyldi nú freista þess að stækka stofninn. Að vori 1986 skilaði ærin einu lambi sem fór venjubundna leið í gegnum sláturhúsið og þaðan í bankann. Við þessa jákvæðu reynslu óx mönnum bjartsýni og var ákveðið að lengja vist ærinnar í húsi Sveins. Vonuðu allir að hún skilaði a.m.k. 2 lömbum að vori.
Í júlí 1985 var farið í 14 daga ferð til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og var þá fyrsti ferðaannáll kórsins skráður. Hlín Torfadóttir var ráðin söngstjóri 1985. Jónas Ásgeirsson var gerður að heiðursfélaga Árnesingakórsins í Reykjavík á aðalfundi sama ár. Kórinn tók þá einnig þátt í Ísklang námskeiði í Langholtskirkju 31. október-3. nóvember.

1986-1990

Vorið 1986 var haldið austur á sameiginlega tónleika með Samkór Selfoss og Árneskórnum. Sungið var í Selfosskirkju og í Árnesi. Eftir tónleikana á Selfossi buðu hjónin í Skeiðháholti, Ólafur og Jóhanna kórnum að koma og dvelja hjá þeim fram að næstu tónleikum sem haldnir voru um kvöldið. Voru þetta höfðinglegar móttökur og ógleymanleg stund.
Árið 1987 varð kórinn tuttugu ára. Ákveðið var að efna til veglegs afmælishófs af því tilefni og reyna að ná til sem flestra fyrrverandi félaga kórsins og stjórnenda hans. Afmælishátíðin var haldin 27. febrúar 1987 í Domus Medica þar sem var sungið og dansað fram eftir nóttu.
Þann 21. mars sama ár var haldið upp á áttræðisafmæli Sigurðar Ágústssonar og kom kórinn þar fram ásamt öðrum kórum og sungu þeir lög eftir afmælisbarnið. Sungið var að Flúðum og í Selfosskirkju.
Í maí 1987 fór kórinn í söngferð norður í land. Sungið var á Hvammstanga og í Miðgarði, þar sem Rökkurkórinn tók á móti kórnum og söng með honum fyrir fullu húsi. Á heimleið buðu hjónin að Ártúnum í Húnavatnssýslu þau Jón Tryggvason og Sigríður Ólafsdóttir kórnum til morgunverðar af mikilli gestrisni.
Árið 1988 var skipt um kórbúninga áður en haldið var til Finnlands og Álandseyja 12. til 22. júní. Ferðin gekk mjög vel og að henni lokinni hafði kórinn ferðast til allra Norðurlandanna.
Haustið 1988 var Sigurður Pétur Bragason ráðinn söngstjóri kórsins.
Kórinn tók þátt í 50 ára afmælishátíð Landssambands blandaðra kóra 5. nóvember 1988 í Laugardalshöllinni. Farið var í vorferðalag 19. maí 1989 og var að þessu sinni farið til Vestmannaeyja. Ferðaveður var vægast sagt slæmt og urðu flestir sjóveikir, en þessarar ferðar er ennþá minnst þegar kórinn þarf að fara eitthvert sjóleiðis.
Um haustið var ákveðið að taka upp aðra plötu kórsins. Um lagavalið orti Sveinn Sæmundsson:
Nú horfa stjörnur og kvaka lóur
Og koparlokkurnar fara á stjá.
Við brimströnd gjálpandi báran raular
sinn brag um drauminn og æskuþrá.
Ég elska lífið og þrái fegurð
og þetta allt sem um ég syng
en þegar kvöldómar kórsins dvína
við keyrum bílana vítt um kring.
Í september 1990 kom hljómplatan Glerbrot til landsins. Sungið var á skemmtun hjá Árnesingafélaginu í Reykjavík 6. október þar sem flutt voru lög af nýútkominni plötu. Platan seldist mjög vee og vegna mikillar eftirspurnar þurfti að gefa út meira magn af hljóðsnældum.

1991-1995

Þann 20. apríl 1991 brugðu kórfélagar sér upp í Hlégarð með kaffibrauð og tóku þar á móti félögum úr Rökkurkórnum í Skagafirði sem var á tónleikaferðalagi um Suðurland. Þann 12. maí 1991 var kórnum boðið í heimsókn suður á Keflavíkurflugvöll í boði Annie B. Andrews en hún hafði sungið einsöng með kórnum um veturinn. Þetta var fjölskylduferð því börn og makar voru með í för. Farið var í tveimur rútum. Ekið var um svæðið og björgunarþyrla skoðuð. Síðan var öllum boðið í mat og lauk þessari heimsókn með tónleikum þar sem Annie söng einsöng með kórnum.
Vorferð kórsins var 6.-10. júní og var að þessu sinni farið norður í land. Sungið var í Miðgarði, Dalvíkurkirkju og Ýdölum
Vetrarstarfið hófst með kveðjutónleikum Annie B. Andrews í Keflavík 27. október þar sem hún söng með kórnum. Þann 30 nóvember var kórinn með bás í Kolaportinu og var hagnaðurinn settur í ferðasjóð, en hafist var handa að undirbúningi utanlandsferðar sumarið á undan.
Kórinn varð 25 ára 14. febrúar 1992 og voru afmælistónleikarnir haldnir í Langholtskirkju 9. maí. Í tilefni 25 ára afmælisins eignaðist kórinn sitt eigið merki sem var hannað af Grétu Hjartardóttur sem var félagi í kórnum.
Sungið var í Skálholtskirkju 21. maí og var það liður í undirbúningi fyrir væntanlega utanlandsferð. Farið var til Þýskalands, Austurríkis og Tékkóslóvakíu (nú Tékkland) 3.-16. júní.
Vetrarstarf kórsins 1992-1993 fór rólega af stað en 23. janúar kom kórinn fram á þorrablóti hjá Skagfirsku Söngsveitinni. Vorið var tekið upp lagið Elskunnar land eftir Pálmar Þ. Eyjólfsson og er á plötunni Sólnætur.
Ekki var farið í skipulagt ferðalag þetta sumarið en Dísa og Bragi buðu kórnum í fjölskylduútilegu í og við sumarbústað þeirra að Syðra-Langholti þann 10. júlí.
Farið var í vorferðalag 13.-15. maí 1994 og ekið sem leið lá að Hofi í Öræfum.þar sem var gist. Þaðan var farið að Jökulsárslóninu á Skeiðarársandi og siglt á lóninu. Þá var haldið áfram að Höfn í Hornafirði þar sem voru tónleikar og ball um kvöldið.
Upptökur á nýjum geisladisk Sönglistinni fór fram vorið 1995.
Haustið 1995 var diskurinn Sönglistin gefin út. Á disknum voru einnig lög af hljómplötunni Glerbrot.

1996-2000

Farið var í Ítalíuferð 7. júní-18. júní 1996.
Haustið 1996 hófst undirbúningar fyrir 30 ára afmæli kórsins 14. febrúar 1997. Halda skyldi veglega tónleika að þessu tilefni og bjóða öðrum kórum að vera með. Haft var samband við gamla félaga og stjórnendur. Ágúst Ágústsson eiginmaður Hrefnu Sigfúsdóttur kórfélaga hannaði nýtt merki fyrir kórinn og var samþykkt að nota það í fyrsta sinn á afmælistónleikunum.
Afmælistónleikarnir voru haldnir 15. febrúar 1997 í Langholtskirkju og heppnuðust sérstaklega vel. Kórarnir sem komu fram ásamt Árnesingkórnum voru: Selkórinn, Kór Kvennaskólans í Reykjavík, Karlakórinn Fóstbræður og Skólakór Kársness. Fullt hús var á tónleikunum og voru meðal gesta fyrri stjórnendur kórsins. Um kvöldið var árshátíð og meðal gesta voru þrír fyrrverandi stjórnendur kórsins: Þuríður Pálsdóttir, Guðmundur Ómar Óskarsson og Hlín Torfadóttir. Þau stjórnuðu hver um sig einu lagi í tilefni dagsins.
Þann 11. mars var sjötugsafmæli Þuríðar Pálsdóttur og veittist kórnum sá heiður að vera þátttakandi í hátíðartónleikum sem haldnir voru í Þjóðleikhúsinu að því tilefni. Þarna var farið yfir feril Þuríðar í tónlistarlífinu og komu margir nemendur hennar fram. Má segja að þarna hafi verið nokkurskonar uppskeruhátíð þessarar frábæru söngkonu.
Proudly powered by Weebly